FRÓÐLEIKSMOLAR

Fróðleikur

Fæturnir eru einhverjir mikilvægustu líkamshlutar hlaupara og því áríðandi að þeir séu heilbrigðir. Álag á fætur hlaupara er misjafnlega mikið eftir líkamsþunga og vegalengd, sem hlaupin er. Við álag geta komið upp ýmis fótamein sem torvelda eðlilegan limaburð.

Hlauparar! Ráð til verndar fótum!

Fyrirbyggið blöðrur og hælsæri með því að setja plástra eða teip á álagsfleti. Gætið þess að fætur séu hreinir og þurrir.
Varast ber að nota skyndiplástur með grisju, grisjan veldur ertingu og núningi á húðinni.
Fótaaðgerðafræðingar veita nánari ráð varðandi fyrirbyggjandi meðferð.

Klæðist sokkum sem falla hæfilega að fótunum. Þeir mega hvorki vera of þröngir né of stuttir og þurfa að gefa tánum nægt rými. Gætið að saumum, grófir saumar geta sært húðina.

Hlaupaskórnir eiga að vera hæfilega stórir og þétt reimaðir annars vill fóturinn renna fram í skóinn sem getur leitt til meira álags á tærnar. Afleiðingar: Bláar og marðar neglur og jafnvel blöðrur.

Hlaupið aldrei berfætt í skónum. Það getur haft hörmulegar afleiðingar.

Að loknu hlaupi er gott að fara í volgt fótabað. Þerrið fæturna vel, sérstaklega á milli tánna, og berið síðan fótakrem á fæturnar. Gætið þess að bera ekki krem á milli tánna.

Ráðlegt er að láta fótaaðgerðafræðing fylgjast reglulega með ástandi fótanna, a.m.k. einu sinni á ári.

Betri fætur!
Betri líðan!
Beint í mark!