LÖG FÉLAGSINS

Lög Félags íslenskra fótaaðgerðafræðinga

Lög F.I.F.
Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga
Stofnað 26. október 1996

1. grein: Heiti – heimili – hlutverk
Heiti félagsins er Félag Íslenkra fótaaðgerðafræðinga, skammstafað FÍF. Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið er sjálfstæður skattaðili. Félagið er fagfélag þeirra fótaaðgerðafræðinga, sem starfsleyfi hafa hér á landi.

2. grein: Markmið
Markmið félagsins eru:
1. Að efla samheldni fótaaðgerðafræðinga á Íslandi.
2. Að gæta hagsmuna fótaaðgerðafræðinga og vera í forsvari fyrir stéttina gagnvart öðrum aðilum.
3. Að stuðla að símenntun félagsmanna og efla áhuga þeirra á að viðhalda þekkingu sinni og að tileinka sér nýjungar.
4. Að glæða félagslegan áhuga og stuðla að tengslum við hliðstæð félög erlendis.
5. Að kynna störf fótaaðgerðafræðinga út á við og hvetja til samstarfs við aðrar heilbrigðisstéttir.
6. Að gæta virðingar fótaaðgerðafræðinga.

3.grein: Félagsmenn
1. Félagar geta þeir einir orðið, sem lokið hafa námi, sem stjórn og fræðslunefnd FÍF viðurkennir og hlotið hafa leyfisbréf landlæknis.
2. Umsókn um inngöngu í félagið skal vera skrifleg á þar til gert eyðublað félagsins. Afrit af leyfisbréfi og prófvottorði fylgi.
3. Umsækjandi skuldbindur sig til að hlýta lögum og samþykktum félagsins á hverjum tíma.
4. Nýir félagar eru teknir í félagið á félagsfundum og greiða þá inntökugjald.
5. Hafi félagi ekki greitt félagsgjald í tvö ár er honum vikið úr félaginu, en hann getur gerst félagi að nýju með því að greiða gjaldfallin félagsgjöld.
6. Félagi, sem ekki starfar við fagið eða er búsettur erlendis getur sótt um leyfi frá félaginu. Hann fær sent fréttabréf og hefur rétt á að sækja félagsfundi, en missir önnur félagsleg réttindi. Hann greiðir 25% af félagsgjöldum.
7. Félagsmenn 67 ára og eldri eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds, nema þeir séu enn starfandi.
8. Félagsmanni er ekki heimilt að taka að sér nema eða einstakling í starfsþjálfun á fótaaðgerðastofu.

4. grein: Réttindi og skyldur
Félagar eiga rétt á:
1. Að sitja félags og aðalfundi.
2. Að sækja námskeið á vegum félagsins.
3. Að hafa atkvæðis og tillögurétt.
4. Að fá sent fréttabréf, endurgjaldslaust.
5. Að hafa stuðning stjórnar félags ef fagleg eða félagsleg vandamál koma upp.
6. Að sýna árvekni og trúmennsku í starfi.
7. Að gæta þagmælsku um vitneskju í starfi sínu og leynt skula fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Sérhver fótaaðgerðafræðingur ber ábyrgð á þagnarskyldu síns starfsliðs.
8. Að sýna félaginu og félagsmönnum virðingu og hollustu. Félagsmönnum er óheimilt í orði eða athöfn að vega að starfsheiðri félagsmanna.

5. grein: Aðalfundur
1. Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Skal hann haldinn í október ár hvert. Aðalfund skal boða bréflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Tillögur frá félagsmönnum, sem þurfa samþykki aðalfundar, skulu hafa borist stjórn eigi síðar en 15. september ár hvert.
2. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.
3. Á aðalfundi skal tekið fyrir:
a. Ársskýrsla formanns
b. Rekstrarskil gjaldkera.
c. Skýrslur nefnda.
d. Lagabreytingar.
e. Kjör stjórnar og reikningsskoðunarmanna.
f. Kjör í nefndir: 1) fræðslu- og kynningarnefnd, 2) siðanefnd, 3) ritnefnd, ásamt fleiri nefndum, sem stjórn telur þörf á hverju sinni.
g. Önnur mál.

6. grein: Stjórn og nefndir
1. Í aðalstjórn skal kjósa formann og 4 meðstjórnendur, sem skipta með sér verkum. Einnig skal kjósa 2 varamenn. Stjórn er kosin til tveggja ára í senn og gilda víxlkosningar þannig að aldrei gangi meirihluti úr stjórn í einu. Kosning skal vera leynileg.
2. Hverjum félagsmanni er skylt að taka kosningu til hvers konar félagsstarfa, nema gild forföll hamli.
3. Varamönnum er skylt að sitja stjórnarfundi til jafns við aðalstjórn.
4. Kjósa skal 2 reikningsskoðunarmenn til tveggja ára í senn.
5. Stjórnar og nefndarmönnum er óheimilt að kenna sig við stjórnar eða nefndarstörf í eigin þágu, en heimilt er að kenna sig við félagið.
6. Kjör í nefndir skulu vera eftirfarandi:
Í fræðslu og kynningarnefnd eru kosnir 5 fulltrúar Í siðanefnd eru kosnir 3 fulltrúar og Í ritnefnd eru kosnir 3 fulltrúar. Nefndarmenn eru kosnir til þriggja ára í senn og gilda víxlkosningar þannig að aldrei gangi meirihluti úr nefnd í einu. Hver nefnd skipar formann.

7. grein: Starfssvið stjórnar og nefnda
Stjórn:
Stjórn hefur yfirumsjón með öllum framkvæmdum félagsins. Ber henni að hafa sem gleggst yfirlit yfir störf allra nefnda og er verndari félagsmanna. Til hennar ber að leita með faglegar og félagslegar fyrirspurnir eða vandamál, sem upp kunna að koma. Stjórn er heimilt að leita til nefnda eða annara félagsmanna með ákveðin verkefni ef þurfa þykir í þágu félagsins. Formaður skal boða til funda og stjórna þeim eða skipa fundarstjóra í sinn stað. Hann skal vinna að stefnumörkun fyrir félagið og sjá um framkvæmd ákvarðana aðal- og félagsfunda í samráði við stjórn. Varaformaður gegnir störfum hans í forföllum. Hann skal hafa eftirlit með störfum hinna ýmsu nefnda félagsins og vera tengiliður þeirra við stjórn.
Ritari annast bréf félagsins í samráði við formann og skal færa bók um það sem gerist á fundum félagsins og stjórnar þess og lesa upp fundargerðir í upphafi næsta fundar og undirrita hana ásamt formanni. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjármunum félagsins í samráði við stjórn. Meðstjórnendur starfa að öllum tilfallandi málum er þurfa þykir með öðrum stjórnarmönnum og taka sæti þeirra í forföllum eftir ákvörðun stjórnar.

Nefndir:
Starfssvið fræðslu- og kynningarnefndar er:
Að stuðla að aukinni menntun félagsmanna með því að standa fyrir fyrirlestrum og námskeiðum hérlendis og kynna þau námskeið og fyrirlestra, sem til boða standa erlendis. Að vinna að stofnun skóla hérlendis. Að auka þekkingu annara heilbrigðisstétta og félagasamtaka með kynningu á starfi fótaaðgerðafræðinga. Starfssvið ritnefndar er m.a. að annast útgáfu fréttabréfs.

Starfssvið siðanefndar er:
Að fylgjast með að félagsmenn framfylgi lögum félagsins.
Að varna því að brotið sé faglega, lagalega eða siðferðislega á félagsmönnum FÍF.
Að taka á félagslegum, faglegum og siðferðislegum vandamálum, sem upp kunna að koma innan félagsins. Siðanefnd setur eigin starfsreglur í samvinnu við stjórn og skulu þær birtar félagsmönnum. Allar nefndir skulu starfa sjálfstætt með samþykki stjórnar og skila ársskýrslu á aðalfundi ásamt því að kynna drög að starfsemi sinni á komandi ári.
Samskiptafulltrúi fellur niður en formaður skipar/velur 1 úr stjórn til að taka að sér erlend samskipti við stjórn og formann.

8. grein: Atkvæðisréttur
Allir skuldlausir félagar hafa tillögu og atkvæðisrétt á félagsfundum og hefur hver félagi eitt atkvæði. Undantekning frá þessu eru félagar í leyfi frá félaginu, er greiða 25% af félagsgjaldi.

9. grein: Gerðabók
Um það sem gerist á stjórnar og félagsfundum skal haldin gerðabók.

10. grein: Landshlutadeildir
Heimilt er með samþykki aðalfundar að stofna til landshlutadeilda innan félagsins. Markmið þeirra deilda skal vera að starfa samkvæmt lögum félagsins og senda skýrslur að loknum fundum til stjórnar FÍF.

11. grein: Auglýsingar
Félagsmönnum ber að virða reglur annara heilbrigðisstarfsgreina varðandi auglýsingar.

12. grein: Félagsmerki
Félagsmerki er eign félagsins og skal vera barmmerki númerað á baki. Enginn hefur rétt til að bera merki félagsins nema sá sem gengið hefur í félagið með löglegum hætti. Greiða skal eitt leigugjald, sem ákvarðast hverju sinni. Ekki er hægt að krefjast endurgreiðslu á þessu gjaldi. Halda skal skrá um nöfn og númer þeirra félaga er merki bera. Skylt er að skila merkinu við brotthvarf úr félaginu eða við andlát, til stjórnar FÍF.

13. grein: Heiðursfélagar
Heiðursfélaga getur félagið gert fótaaðgerðafræðing eða hvern þann velunnara félagsins, er það álítur að sýna beri sérstaka viðurkenningu. Það skal samþykkt á aðalfundi með 3/4 greiddra atkvæða.

14. grein: Tilnefningar
Tilnefningar í stjórnar og nefndastörf skulu hafa borist til stjórnar FÍF eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund.

15. grein: Úrsögn
Hver félagsmaður getur sagt sig úr félaginu enda sendi hann skriflega úrsögn og skal viðkomandi vera skuldlaus sbr. 3. grein liður 5. Komi einhver félagsmaður fram á þann hátt, að ekki samræmist markmiði félagsins, hag þess og heiðri, getur stjórnin veitt honum áminningu, sekt eða vikið honum úr félginu. Hefur hann ekki atkvæðisrétt um þá tillögu enda hafi honum áður verið gefinn kostur á að verja mál sitt. Brottrekstrartillögu skal geta í fundarboði. Félaga verður ekki vikið úr félaginu nema á félagsfundi. Þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða.

16. grein: Reikningstímabil
Reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst. Árgjald félagsins er ákveðið á aðalfundi og greiðist í tveimum hlutum. Gjalddagar eru 1. febrúar og 1. júlí.

17. grein: Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða.

18. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á aðalfundi 29. október 2016.